Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 56/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 56/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100104

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. október 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Íran ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. september 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 21. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við handhafa dvalarleyfis (hér eftir A) og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. september 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að A hafi þegar verið í hjúskap með öðrum einstaklingi (hér eftir B), þegar hann gekk í hjúskap með kæranda og bryti hjúskapur þeirra í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga enda legði 11. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 fortakslaust bann við tvíkvæni. Taldi stofnunin umræddan hjúskap því ekki veita rétt til dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin 3. október 2023. Hinn 17. október 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram frekari gögn hjá Útlendingastofnun 2. október 2023 en á því tímamarki hafði stofnunin tekið ákvörðun í máli kæranda en hún hafði ekki verið móttekin af kæranda, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að kærandi væri ekki stödd á landinu en í dvalarleyfisumsókn hennar kom þó fram að hún hefði komið til landsins 10. september 2022. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 8. janúar 2024, óskaði nefndin eftir upplýsingum og gögnum um dvöl kæranda á landinu, þ. á m. stimplum í vegabréfi og útgefnum vegabréfsáritunum. Með tölvubréfi, dags. 9. janúar 2024, lagði kærandi fram umbeðin gögn. Kærandi fékk útgefna vegabréfsáritun af ítölskum stjórnvöldum 9. ágúst 2022, sem heimilaði eina komu á Schengen-svæðið og dvöl í allt að tíu daga á tímabilinu 30. ágúst til 23. september 2022. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kom kærandi inn á Schengen-svæðið 31. ágúst 2022 í gegnum Malpensa alþjóðaflugvöllinn í Mílanó. Ekki liggja fyrir gögn um að kærandi hafi yfirgefið landið eftir að heimild hennar til dvalar samkvæmt árituninni lauk. Leggur kærunefnd því til grundvallar að kærandi sé stödd á landinu í samræmi við upplýsingar í dvalarleyfisumsókn. Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 10. janúar 2024 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún sé með íranskt ríkisfang og hafi gengið í hjúskap með A 13. október 2020. Maki kæranda, A, sé einnig íranskur ríkisborgari en fékk alþjóðlega vernd hér á landi með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. [...], og var á þeim tíma í hjúskap með B. Við meðferð málsins barst kæranda bréf frá Útlendingastofnun þar sem fram kæmi að hjúskapur A við B væri enn skráður í þjóðskrá. Hefði við það tilefni vaknað grunur um að hjúskapur kæranda og A bryti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga og gæti ekki veitt rétt til dvalarleyfis. Kærandi byggir á hinu gagnstæða, og hafa hún og A unnið að gagnaöflun í heimaríki og bera fyrir sig að skilnaður A og B hafi farið fram 21. janúar 2018 en síðar verið staðfestur fyrir dómi 23. ágúst 2020. Í öllu falli byggir kærandi á því að A hafi verið lögskilinn þegar þau gengu í hjúskap. 

Kærandi vísar til tilgreindra atriða í umræddum dómi frá 23. ágúst 2020 og telur ljóst að skilnaður A og B hafi verið staðfestur árið 2018 sem útiloki að A hafi getað verið tvíkvæntur þegar hann gekk í hjúskap með kæranda 13. október 2020. Telur kærandi hjúskap sinn því ekki brjóta í bága við meginreglur íslensks hjúskaparréttar og allsherjarreglu og að sér skuli veitt umbeðið dvalarleyfi.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga kemur fram að nánasti aðstandandi íslensks eða norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 58., 61.-65., 70., 73., 74. eða 78. gr. laga um útlendinga geti fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Í 70. gr. laga um útlendinga er nánar mælt fyrir um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar en í 2. málsl. 8. mgr. ákvæðisins kemur fram að hjúskapur sem brjóti í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga veiti ekki rétt til dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins.

Í athugasemdum við 8. mgr. 70. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðið taki af allan vafa um að hjúskapur sem brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki gildur gerningur og veiti ekki rétt til dvalarleyfis. Í dæmaskyni eru nefndar hjónavígslur þar sem annað hjóna eða bæði voru börn við vígsluna, eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina, svonefndar fulltrúagiftingar. Sama gildi um athafnir þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Hjónavígslur, þar sem annað eða bæði hjóna var þegar í hjúskap með öðrum einstaklingi, sbr. einnig 11. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, veitir ekki rétt til dvalarleyfis á Íslandi sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun var lagt til grundvallar A og B hefðu verið gift þegar stofnað var til hjúskapar kæranda og A. Vísað var til þess að hjúskapur A og B væri enn skráður í þjóðskrá auk þess sem að skilnaður þeirra hefði ekki verið fullgiltur fyrr en 6. júní 2023, tæpum þremur árum eftir að kærandi og A gengu í hjúskap. Kærandi byggir aftur á móti á því að A og B hafi skilið 21. janúar 2018. Kærandi hefur lagt fram endurrit dóms dómstóls í Írak þar sem fram kemur að A og B hafi skilið utan réttar 21. janúar 2018, að frumkvæði B, og að skilnaðurinn væri óafturkallanlegur sem slíkur án undangengins nýs hjúskaparsáttmála þeirra á milli. Í dóminum kemur fram að skilnaður A og B hafi verið staðfestur af dómstól 23. ágúst 2020. Endurrit dómsins er staðfest 6. júní 2023.

Með vísan til framangreinds liggur fyrir að kærandi og B gerðu með sér samkomulag utan réttar um skilnað, dags. 21. janúar 2018, sem staðfest var af hálfu dómstóls í Írak, dags. 20. ágúst 2020. Líkt og fram hefur komið gekk kærandi ekki í hjúskap með A fyrr en síðar, nánar tiltekið 13. október 2020.  Hvorki umræddur lögskilnaður né sú hjónavígsla sem dvalarleyfisumsókn grundvallast á, voru framkvæmd af íslenskum stjórnvöldum. Getur tilvísun Útlendingastofnunar til skráningar þjóðskrár í ekki haft afgerandi þýðingu í málinu. Fram kemur í 1. mgr. 25. gr. a. hjúskaparlaga að hjón sem gengið hafa í hjúskap erlendis eigi rétt á því að fá hjúskapinn viðurkenndan hér á landi. Þrátt fyrir skráningu hjúskapar A og B í þjóðskrá telur kærunefnd að framangreint ákvæði verði ekki túlkað með svo rúmum hætti að lögskilnaður, sem framkvæmdur er erlendis, hafi ekki gildi að lögum þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í þjóðskrá. Hvað sem öðru líður var hjúskaparstöðu A breytt í þjóðskrá 13. október 2023, og hann er nú skráður lögskilinn.

Að öllu framangreindu virtu verður felld úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn hennar til meðferðar að nýju.

Athugasemdir kærunefndar við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Samkvæmt því sem þegar hefur verið rakið er kærandi stödd á landinu. Þrátt fyrir framangreint tók Útlendingastofnun fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi væri ekki stödd á landinu en ekki var rökstutt hvernig stofnunin komst að framangreindri niðurstöðu. Beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að gæta að rannsókn um dvöl á landinu.

Af hinni kærðu ákvörðun má ráða að ekki hafi verið tekin afstaða til heimildar kæranda til dvalar á meðan umsókn hennar væri til meðferðar, sbr. 51. gr. laga um útlendinga. Beinir kærunefnd því til stofnunarinnar að taka afstöðu til lagaákvæðisins við hina nýju málsmeðferð í ljósi þess að kærandi er stödd hér á landi, að gættum málsmeðferðarreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga, og tilkynna kæranda svo fljótt sem verða má.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum